Lífið

Lag til heiðurs McCartney

Sigurður Eyberg hefur gefið út sína fyrstu sólóplötu, Finger Of God (Toes of Paul McCartney). Fréttablaðið/Anton
Sigurður Eyberg hefur gefið út sína fyrstu sólóplötu, Finger Of God (Toes of Paul McCartney). Fréttablaðið/Anton

Sigurður Eyberg úr rokksveitinni Deep Jimi and the Zep Creams hefur gefið út sína fyrstu sólóplötu. Eitt lag er tileinkað Paul McCartney.

„Þetta er búið að eiga sér langan aðdraganda," segir Sigurður Eyberg, sem hefur gefið út sína fyrstu sólóplötu, Finger Of God (Toes of Paul McCartney).

Sigurður, sem er söngvari rokksveitarinnar Deep Jimi and the Zep Creams, blandar saman ýmsum tónlistarstefnum á plötunni, þar á meðal danstónlist, poppi og rokki, á forvitnilegan hátt. „Maður er búinn að vera að semja fullt af dóti og svo var þetta farið að hlaðast það mikið upp að ég hugsaði að nú yrði maður að tappa af þessu," útskýrir hann. „Ég setti þetta inn í tónlistarforrit og fór að setja „lúppur" undir til að sjá hvernig þessi lög eða lagabútar væru að virka. Þetta fór að taka á sig skemmtilega mynd og ég ákvað að gera plötu sem tæki mikið mið af þessum prufuupptökum."

Eitt lag á plötunni er tileinkað Paul McCartney og nefnist When I"m 69, sem er grín-útúrsnúningur úr Bítlalaginu When I"m 64. „Mér fannst þetta alveg kjörið þar sem hann verður 69 ára á árinu. Nafnið á plötunni spratt upp út frá því," segir hann en vill ekki meina að McCartney sé í meira uppáhaldi hjá sér en aðrir.

Sigurður býður aðdáendum sínum að taka þátt í tónlistarsköpun sinni á síðunni Sigurdureyberg.com. Uppátækið er óvenjulegt og á rætur sínar að rekja til „samtala" sem hann hefur átt við áhorfendur í gegnum leikhúsið, en Sigurður er menntaður leikari.

„Mér finnst orðið erfitt að hafa mig upp úr sófanum frá tölvuskjánum og ég held að það séu margir þannig. Þetta samtal við áhorfendur sem maður fær í gegnum „live"-spilamennsku er ekki svo mikið til staðar í þessu verkefni en þú getur fengið það í gegnum svona samtal. Það verður gaman að sjá hvaða viðbrögð ég fæ við þessu."

Spurður hvort ekkert tónleikahald sé þá fram undan segir Sigurður: „Ég er meira að horfa á heimasíðuna. Mig langar að ná upp þessu samtali þar og stemningu."

freyr@frettabladid.is








Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.