Innlent

Þriggja og hálfs árs fangelsi fyrir stórhættulega líkamsárás

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Árásin var gerð fyrir framan Hótel 1919. Mynd/ Stefán.
Árásin var gerð fyrir framan Hótel 1919. Mynd/ Stefán.
Tuttugu og fjögurra ára gamall karlmaður, Andri Vilhelm Guðmundsson, var dæmdur í þriggja og hálfs árs fangelsi í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun fyrir alvarlega líkamsárás í Hafnarstræti síðastliðinn nýársdag. Árásin var gerð fyrir framan Hótel 1919.

Andri sparkaði í mann svo hann féll í gangstéttina og sparkaði ítrekað í höfuð hans og líkama þar sem hann lá. Afleiðingarnar urðu þær að fórnarlambið hlaut lífshættulegan höfuðáverka. Auk fangelsisdómsins var Andri Vilhelm dæmdur til að greiða fórnarlambinu eina milljón í miskabætur.

Fram kemur í dómnum að áverkar árásarþolans væru slíkir að þeir hafi getað leitt til alvarlegra meina og dauða. Erfitt væri að átta sig á endanlegum bata brotaþola. Eftir að hann myndi losna af endurhængadeild af Grensás myndi taka við eftirmeðferð og eftirlit. Skemmt á heilavef gæti leitt til persónubreytinga og slakara minnis. Þá væri marið nálægt talstöðvum og gæti það haft áhrif á tal.

Verjandi Andra Vilhelms býst við því að dómnum verði áfrýjað.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×