Innlent

Á ekki von á stórum tíðindum

Árni Þór Sigurðsson
Árni Þór Sigurðsson
Þingflokkur Vinstri grænna hittist á fundi í dag í fyrsta sinn síðan miklar deilur blossuðu þar upp í lok árs. Fundurinn hefst klukkan tólf. Árni Þór Sigurðsson, starfandi þingflokksformaður, kveðst ekki eiga von á að þar dragi til tíðinda. Fundurinn stendur þó fram á kvöld, en tekið verður um tveggja klukkustunda hlé um miðjan dag vegna jarðarfarar.

„Við erum bara að fara að ræða innra starf þingflokksins og starfsáætlunina fram á vorið. Að sjálfsögðu ræðum við þau mál sem flokkurinn hefur ekki verið alveg samstíga í, eins og gengur, en ég vonast til og hef ástæðu til að ætla að allir reyni að leggja sitt af mörkum til að þetta verði góður fundur,“ segir Árni.

Meðal þess sem rætt verður eru sjávarútvegsmál og Evrópumál, en síður er búist við því að stofnun atvinnuvegaráðuneytis komi til umræðu. Hún hefur verið umdeild innan flokksins.

Fyrir jól kom til snarpra deilna milli þremenninganna sem studdu ekki fjárlagafrumvarp ríkisstjórnarinnar, einkum Lilju Mósesdóttur, og annarra þingmanna flokksins. Lilja gekk svo langt að segjast íhuga úrsögn úr flokknum.

Spurður hvort hann hafi trú á að allir skilji sáttir að fundi loknum segist Árni vona það, en meira viti hann ekki.- sh



Fleiri fréttir

Sjá meira


×