Innlent

Segir orð Valtýs fráleitar dylgjur

Þorbjörn Þórðarson skrifar
Forsætisráðherra segir ríkissaksóknara fara með fráleitar dylgjur og hvetur hann til að draga orð sín um afskipti hennar af ákæruvaldinu til baka.



Ríkissaksóknari gagnrýndi forsætisráðherra á málstofu um stöðu ákæruvaldsins í gær og gaf í skyn að hún hefði haft bein afskipti af ákæruvaldinu.



„Fráleit ummæli"

Jóhanna, þetta er býsna hörð gagnrýni frá æðsta handhafa ákæruvaldsins. Hann sagði og benti á að þú hefðir sagt að þú teldir ekki rétt að áfrýja dómi héraðsdóms í máli níumenninganna þegar áfrýjunarfresturinn var ekki liðinn. Það var á endanum niðurstaðan að áfrýja málinu ekki. Má færa rök fyrir því að þetta teljist afskipti af störfum ákæruvaldsins af þinni hálfu? „Þetta eru fráleit ummæli af hálfu ríkissaksóknara og mjög alvarlegar aðdróttanir og hann ætti að sjá sóma sinn í því að draga þær til baka. Ég hafði aldrei nein orð um að ekki ætti að áfrýja, aldrei nokkurn tímann. Ég tel að hann verði að finna orðum sínum stað og skýra þau. Því þetta er auðvitað alvarleg framsetning af hans hálfu," segir Jóhanna.



Hún segir að einu afskipti sín af réttarkerfinu séu að reyna að styrkja það og setja í það fjármuni sem forsætisráðherra.

Valtýr gagnrýndi einnig Jóhönnu fyrir ummæli sín um rannsóknir á bankahruninu, en í gær sagði hann: „Forsætisráðherra hefur auk þess tekið virkan þátt í baráttunni gegn þessum svokölluðu útrásarvíkingum og hvatt menn til dáða á þeim vettvangi. Forsætisráðherra hefur nánast ærst af fögnuði þegar þessir menn, eða menn úr þessum geira, eru hnepptir í gæsluvarðhald," sagði Valtýr.



Skorar á Valtý að skýra sitt mál eða draga ummælin til baka

„Það eina sem ég hef tjáð um þau mál (handtökur og gæsluvarðhald yfir útrásarvíkingum innsk.blm) er almennt eins og fólkið í landinu tjáir sig um þau. Það vill að réttarkerfið hafi sinn gang í þessu máli og að þeir sem hafi gerst ábyrgir og brotlegir í þessu hruni, þeir fari í gegnum réttarkerfið og fái sinn dóm þar ef sekt þeirra er sönnuð. Það er það eina sem ég hef sagt og mér finnst þessi ummæli fráleit og er undrandi á því að þessi embættismaður skuli vera með svona dylgur. Ég skora á hann að skýra sitt mál og draga þessi ummæli til baka, því þau eru alvarleg," segir Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra. thorbjorn@stod2.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×