Innlent

Fálkasetur stofnað í Ásbyrgi

Fálkasetur Íslands hefur verið stofnað í Ásbyrgi. Stofnendur telja þennan tignarlega fugl skipa sérstakan sess, hann hafi verið í skjaldarmerki Íslands og talinn konungsdjásn. Það eru Vatnajökulsþjóðgarður, Náttúrustofa Norðausturlands, Atvinnuþróunarfélag Þingeyinga og samtökin Fuglastígur á Norðausturlandi sem standa að Fálkasetrinu og verður það til húsa í þjóðgarðsmiðstöðinni í Ásbyrgi, Gljúfrastofu.

Talið er að þrjú til fjögurhundruð pör verpi á Íslandi, meðal annars í klettunum í Ásbyrgi, en vitað er um níu óðul fálka í Jökulsárgljúfrum. Hjörleifur Finnsson þjóðgarðsvörður og formaður félags um Fálkasetur Íslands, segir að þar sé ætlunin að miðla fræðslu til almennings, ekki aðeins um fálkann, heldur einnig um rjúpuna, sem er hans helsta fæða. Hann segir að bestu rjúpnalöndin séu í Þingeyjarsýslum og þar af leiðandi bestu fálkalöndin og því eigi fálkasetrið best heima þar.

Þarna verða ekki bara myndir og uppstoppaðir fuglar heldur er hugmyndin að leita eftir samstarfi við aðila eins og Húsdýragarðinn í Reykjavík um lifandi fálka.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×