Innlent

Ásakanir ríkissaksóknara svakalega þungar

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Vigdís Hauksdóttir segir ásakanirnar svakalega alvarlegar. Mynd/ GVA.
Vigdís Hauksdóttir segir ásakanirnar svakalega alvarlegar. Mynd/ GVA.
Ásakanir Valtýs Sigurðssonar ríkissaksóknara um að Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra hefði haft bein áhrif á ákæruvaldið eru svakalega þungar, segir Vigdís Hauksdóttir, fulltrúi Framsóknarflokksins í allsherjarnefnd Alþingis.

„Maður hélt að þetta væri bara í svörtustu Afríku, en svona hefur þessi ríkisstjórn hagað sér. Og í raun og veru, í þessum málum sem eru búin að vera fyrir dómstólum, að þá hefur ríkisstjórnin verið að hóta dómstólum með ýmsum hætti óbeint í gegnum fjölmiðla," segir Vigdís. Þetta megi ríkisstjórnin ekki gera.

Vigdís segir að spillingin sem hafi viðgengist í landinu sé slík að við megum bara ekki vð því að missa trúna á dómstólana. „Því að ef við missum trúna á dómstólana hér á landi þá er þetta bara búið," segir Vigdís. Sífellt fleiri fréttir séu að birtast af því sem aflaga hafi farið fyrir hrun og það sé algjörlega nauðsynlegt að hægt sé að stóla á að ákæruvaldið og dómstólarnir geti tekið á þessum málum.

Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra hefur ekki viljað veita viðtöl vegna ummæla ríkissaksóknara. Hún hefur þó viljað láta hafa eftir sér að henni finnist ummælin vera ómakleg.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×