Lífið

Árni og félagar heitir á lista BBC

Árni Hjörvar er bassaleikari bresku hljómsveitarinnar The Vaccines, en henni er spáð miklum frama í Bretlandi á árinu.
fréttablaðið/stefán
Árni Hjörvar er bassaleikari bresku hljómsveitarinnar The Vaccines, en henni er spáð miklum frama í Bretlandi á árinu. fréttablaðið/stefán
Bassaleikarinn Árni Hjörvar Árnason og félagar í bresku hljómsveitinni The Vaccines eru í þriðja sæti á lista breska ríkisútvarpsins BBC yfir heitustu hljómsveitir ársins 2011. BBC birtir ný nöfn á listanum vikulega, en aðeins annað og fyrsta sæti er eftir.

Eins og fram kom í Fréttablaðinu á dögunum er annasamt ár fram undan hjá Árna og félögum í The Vaccines. Hljómsveitinni, sem var stofnuð í fyrra, er spáð miklum frama og fyrsta platan er væntanleg í mars. The Vaccines er bókuð á tónleika fram í október, verður á tónleikaferðalagi breska blaðsins NME í febrúar og er ein af heitustu nýju hljómsveitum ársins samkvæmt MTV.

BBC birtir listann árlega, en hann er settur saman af 160 gagnrýnendum, tónlistarbloggurum og fjölmiðlamönnum. Á meðal hljómsveita sem komust á listann áður en þær slógu í gegn eru MGMT, Kaiser Chiefs, Vampire Weekend og Klaxons. Þá komust listamenn á borð við Lady Gaga, Duffy og Mika á listann áður en þau urðu alþjóðlegar ofurstjörnur.

Það er þó alls ekki gefið að slá í gegn þrátt fyrir að komast á lista BBC. Það hafa til að mynda fáir heyrt um hljómsveitina Kubb sem var á listanum árið 2006. Hljómsveitin Passion Pit bíður einnig eftir því að slá í gegn, en hún var á listanum árið 2009.

- afb





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.