Handbolti

Snorri Steinn: Viljum koma okkur aftur á beinu brautina

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar

Íslenska landsliðið í handbolta kom saman á sinni fyrstu æfingu í undirbúningnum fyrir HM í handbolta sem hefst í Svíþjóð þann 13. janúar næstkomandi.

Liðið æfði í íþróttahúsi Fram í Safamýrinni og var vel tekið á því á fyrstu æfingunni.

„Þetta var löng og erfið æfing eins og ég bjóst við," sagði Snorri Steinn glaðbeittur í samtali við Vísi.

„Við höfum nú fengið 3-4 daga frí og þurfum nú að vera á tánum og koma okkur í stand. Það er alls engin þreyta í mér sjálfum og ég er hungraður í árangur."

Hann segist vera bjartsýnn á þessum tímapunkti en bendir á að enn geti margt breyst áður en mótið sjálft hefst.

„Maður er alltaf bjartsýnn. Það þýðir ekket annað. Við höfum sýnt það áður að við erum með gott lið en við þurfum að nýta tímann vel. Það getur allt gerst fram að móti og meiðsli geta sett strik í reikninginn. Það kemur því í raun ekki í ljós hvar við stöndum fyrr en á hólminn er komið."

Snorri segir að leikmenn ætli ekki að láta leikina gegn Lettlandi og Austurríki í undankeppni EM 2012 í haust sitja í sér. Ísland vann nauman sigur á Lettum á heimavelli en tapaði fyrir Austurríki ytra.

„Við vorum lélegir í þessum leikjum og höfum haft það á bakvið eyrað. Ég held að menn séu enn betur stemmdir fyrri vikið og við erum staðráðnir í því að koma okkur aftur á beinu brautina."

Viðtalið í heild sinni má sjá hér fyrir ofan.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×