Innlent

Össur: Markríldeilan tengist ekki aðildarviðræðunum

Heimir Már Pétursson skrifar
Frá aðildarviðræðunum í Brussel
Frá aðildarviðræðunum í Brussel Mynd/AFP
Stækkunarstjóri Evrópusambandsins telur rétt að nýta góðan anda í aðildarviðræðum Íslands við sambandið til að leysa makríldeiluna við Íslendinga. Utanríkisráðherra segir deiluna ekki tengjast aðildarviðræðunum, en ágætis framvinda eigi sér stað um makríldeiluna á öðrum vettvangi.

Góður andi ríkti á fyrsta degi formlegra aðildarviðræðna Íslendinga og Evrópusambandsins á ríkjaráðstefnu í Brussel í gær.

Leiðtogar sambandsins fögnuðu þeirri yfirlýsingu utanríkisráðherra að hann vildi á næstu mánuðum hefja viðræður á öllum sviðum mögulegs aðildarsamnings og byrja sem fyrst að ræða erfiðu málin, landbúnað og sjávarútveg.

En Íslendingar hafa einnig átt í erfiðri deilu við Evrópusambandið undanfarin ár um veiðar á makríl, en ekkert samkomulag er um útdeilingu kvóta á þeim fiski og hafa Íslendingar tekið sér einhliða kvóta. Hagsmunasamtök sjómanna á Írlandi og í Skotlandi hafa þrýst á Evrópusambandið að slíta jafnvel aðildarviðræðunum við Ísland vegna málsins.

Væri það ekki í anda þessarar jákvæðni og þessarar vináttu sem er greinilega á milli ykkar þriggja að minnsta kosti að leysa makríldeilu Íslendinga og Evrópusambandsins og sýna góðan anda og taka hana út af borðinu?

Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra sagði makríldeiluna ekki tengda aðildarviðræðunum.

„Þetta er hefðbundin deila um fiskveiðar sem Íslendingar eru alvanir að fást við og ég tel að það hafi verið jákvæð þróun í henni," sagði Össur.

Stækkunarstjóri ESB tók undir þetta með Össuri en bætti svo við:

„Í öðru lagi er ég líka sammála því að það væri mikilvægt að sá skriður sem við höfum náð í dag með því að opna fjóra kafla og loka tveimur köflum haldi áfram. Þetta er jákvæður skriður sem endurspeglast líka í þessum viðræðum og sem Evrópusambandið og aðrir aðilar deilunnar myndu líka hafa hag af," segir Stefan Füle, stækkunarstjóri ESB.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×