Innlent

Fjögur flug felld niður í dag: Algjörlega óviðunandi ástand

Vegna yfirvinnubanns Félags íslenskra atvinnuflugmanna hefur Icelandair orðið að fella niður 4 flug á þessum sólarhring: Flug til og frá Kaupmannahöfn í nótt sem leið og flug til og frá Berlín síðdegis í dag. Alls eru um 600 farþegar á þessum flugum.

Ástæða þess að fella þarf flugin niður eru veikinda flugmanna og veikindi flugmanna á bakvakt. Vegna verkfallsaðgerðanna er ekki um annað að ræða en að fella flugin niður.

„Þetta er algjörlega óviðunandi ástand og við biðjum viðskiptavini innilega afsökunar á þeim óþægindum sem niðurfelling flugsins veldur. Þegar verkfallsaðgerðirnar halda áfram með þessum hætti dögum saman verður stöðugt erfiðara fyrir Icelandair að leysa úr vanda einstakra farþega, en starfsfólk okkar í þjónustuveri og á flugvöllum leggur sig allt fram við erfiðar aðstæður", segir Guðjón Arngrímsson, upplýsingafulltrúi Icelandair.

Tímasetning og eðli verkfallsaðgerðanna byggir á því að nú er háannatími í flugi og ferðaþjónustu og greinin mjög viðkvæm fyrir röskun. Það eru Icelandair mikil vonbrigði að til þeirra sé gripið, þrátt fyrir að Icelandair hafi boðið FÍA sambærilegar launahækkanir og aðrir í samfélaginu hafa samið um að undanförnu, þar á meðal aðrir starfshópar Icelandair.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×