Innlent

Efnameiri fá betri lögfræðiaðstoð en aðrir landsmenn

Lögmannafélagið hefur meðal annars áhyggjur af því að fjölgun dómara Hæstaréttar geti valdið því að dæmt sé á mismunandi hátt um svipuð sakarefni. Mynd/GVA
Lögmannafélagið hefur meðal annars áhyggjur af því að fjölgun dómara Hæstaréttar geti valdið því að dæmt sé á mismunandi hátt um svipuð sakarefni. Mynd/GVA
Ása Ólafsdóttir hæstaréttarlögmaður kom áhyggjum lögmanna af stöðu íslenska réttarríkisins á framfæri við stækkunar-skrifstofu Evrópusambandsins (ESB). Ása sat fund ytra fyrir hönd stjórnar Lögmannafélags Íslands.

Í nýjasta tölublaði Lögmannablaðsins reifar hún þær athugasemdir sem hún kom á framfæri. Breyting á lögum um meðferð einkamála hafi skert mjög möguleika einstaklinga til gjafsóknar. Þá gæti lækkun tímagjalds verjenda í sakamálum orðið til þess að efnameiri einstaklingar fengju betri lögfræðiaðstoð en þeir sem minna hafa á milli handanna. „Öll þessi atriði eru til þess fallin að grafa undan réttarríkinu og okkur þótti rétt að benda ESB á það."





Ögmundur Jónasson.
Þá segir Ása að staða fangelsismála sé óviðunandi, hér séu ekki sérstök gæsluvarðhaldsfangelsi og dæmi séu um einstaklinga sem vistaðir hafi verið í venjulegum fangaklefum allt að tólf daga í gæsluvarðhaldi, þó að slíkt sé ekki heimilt að lögum. Það geti grafið undan réttarríkinu.

Að auki gagnrýndi Ása hugmyndir um hlutverk lögmanna. Færst hefði í aukana að heimiluð væri leit á skrifstofum þeirra í tengslum við rannsókn sakamála. Það gæti grafið undan trúnaði lögmanna og skjólstæðinga. Þá nefndi Ása einnig áhyggjur af álagi á dómara og dómstóla.





Ása Ólafsdóttir
Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra segir gott að fá gagnrýni og það veiti tækifæri til að benda á þá vinnu sem verið sé að vinna innan ráðuneytisins.

Gjafsóknarmál séu til endurskoðunar og ekki megi skerða möguleika fólks á að leita réttar síns í dómskerfinu. „Ég vil þar horfa til tekjumarka fremur en rýmri heimilda fyrir þá sem hugsanlega hafa meira á milli handanna."

Hann segir að verið sé að grípa til ýmissa ráða til að efla réttarkerfið og réttarríkið almennt.

„Þannig er nú af meiri alvöru en nokkru sinni fyrr verið að skoða þann kost að setja hér upp þrjú dómstig," segir Ögmundur og vísar til álits nefndar um málið, sem aðgengilegt er á heimasíðu ráðuneytisins.

Ráðherra segir smíði nýs fangelsis í undirbúningi og sett hafi verið fram lagafrumvarp um breytta fullnustudóma með meiri áherslu á samfélagsþjónustu. Því miður verði að sníða sér stakk eftir vexti varðandi skert fjárráð ríkissjóðs.

kolbeinn@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×