Innlent

Hjúkrunarfræðingur á Hrafnistu sagður hafa stolið lyfjum

Starfsmaður á Hrafnistu í Kópavogi er sagður hafa stolið lyfjum úr lyfjaskápum hjúkrunarheimilisins og var handtekinn fyrr í vikunni. Við reglubundið innra eftirlit varð fyrir nokkru vart við óeðlilegra rýrnun á tilteknum lyfseðilskyldum lyfjum í ákveðnum lyfjaflokkum hjá Hrafnistu í Kópavogi, að því er fram kemur í tilkynningu frá Pétri Magnússyni, forstjóra Hrafnistu.

Þar segir að í samráði við öryggisfyrirtæki, sem vinnur náið með stjórnendum Hrafnistu í málum sem þessum, hafi verið fylgst nákvæmlega með birgðahaldi heimilisins á ákveðnu tímabili. Það eftirlit leiddi til þess að grunur um saknæmt athæfi, beindist að ákveðnum starfsmanni heimilisins.

Í kvöldfréttum Ríkisútvarpsins kom fram að um væri að ræða konu á fimmtugsaldri sem starfað hefur sem hjúkrunarfræðingur á hjúkrunarheimilinu. Konan er meðal annars grunuð um að hafa stolið morfínlyfjum. Fram kom í frétt RÚV að á fundi með yfirmönnum Hrafnistu hafi konan viðurkennt að hafa stolið lyfjum úr lyfjaskápum hjúkrunarheimilisins.

Þá kemur fram í tilkynningu Péturs að Landlæknisembættinu og Lyfjastofnun hafi verið tilkynnt um málið samkvæmt vinnuferlum Hrafnistu. Umræddur starfsmaður hefur þegar látið af störfum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×