Innlent

Arkitektar lögðust í víking

Jón Ólafur Ólafsson, arkitekt hjá Batteríinu.
Jón Ólafur Ólafsson, arkitekt hjá Batteríinu.
Íslenskir arkitektar eru komnir í úrslit alþjóðlegrar hönnunarsamkeppni í Kaliforníu. Arkitektastofan Batteríið lagðist í víking í kreppunni og hvetur önnur fyrirtæki til að gera hið sama.

Batteríið er hluti af samstarfsverkefninu TBL arkitektum, ásamt stofunum Tark og Landslag. Þessar arkitektastofur tóku höndum saman við ensku stofuna John Cooper um þátttöku í samkeppni um hönnun nýs sjúkrahúss fyrir fyrirtækið Kaiser Permanente í Kaliforníu, en tillaga þeirra um nýtt háskólasjúkrahús í Reykjavík lenti í þriðja sæti í fyrra. Alls tóku fleiri en 100 alþjóðleg fyrirtæki þátt í samkeppninni í Kaliforníu, en tillaga íslensku arkitektanna er nú komin í hóp níu úrslitatillagna.

„Þetta þýðir mikið fyrir okkur fyrir okkur vegna þess að þetta þýðir að við erum orðin þekkt stærð þá í því að við getum hannað sjúkrahús og getum gert það á heimsmælikvarða,“ segir Jón Ólafur Ólafsson, arkitekt hjá Batteríinu.

Jón Ólafur segir að á Íslandi hafi ástandið verið afskaplega erfitt fyrir arkitekta í kreppunni, og atvinnuleysi í stéttinni hafi farið upp í 70% á tímabili. Hjá Batteríinu var vörn hins vegar snúið í sókn. „Við ákváðum fljótlega að við ætluðum ekki að sitja með hendur í skauti og gera ekki neitt heldur leituðum við út. Við hugsuðum með okkur, jæja fyrst það eru engin verkefni eru á Íslandi þá hljóta þau að vera einhvers staðar annars staðar.“

Batteríið hefur undanfarið hannað byggingar í Kanada og Noregi, en er nú einnig með verkefni í gangi í Bandaríkjunum og Svíþjóð. Jafnvel þótt framkvæmdagleðin sé lítil hér á landi eru því þrátt fyrir allt tækifæri til að prófa nýja hluti erlendis.

„Ég vil bara hvetja íslensk fyrirtæki til að gera það. Ég vil gjarnan bæta því við að það hefur oft verið talað um, sérstaklega í íslenska iðnaðinum, að nú sé þörf að grípa til atvinnubætandi aðgerða eins og Vaðlaheiðargöng og vegaframkvæmdir. Ég segi nei. Leitið út. Leitið að verkefnum erlendis og leitiði að verkefnum sem skapa gjaldeyri. Síðan skulum við tala um Vaðlaheiðargöng þegar við höfum efni á því,“ segir Jón Ólafur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×