Innlent

Kynferðisofbeldi helsta ógn við velferð barna

Mynd/Stefán Karlsson
Unicef á Íslandi hefur tekið saman ítarlega skýrslu um stöðu barna á Íslandi og ógnum sem að þeim steðja. Kallað er eftir opinberum forvörnum gegn kynferðisofbeldi og segja samtökin þörf á heildstæðari rannsóknum.

 

Unicef á Íslandi kynnti í gær nýja skýrslu um stöðu barna á Íslandi. Þar eru teknar saman niðurstöður rannsókna sem hafa verið gerðar síðustu ár, í þeim tilgangi að birta heildstæða mynd af aðstæðum barna hér á landi og ógnum sem að þeim steðja.

 

Stefán Ingi Stefánsson, framkvæmdastjóri Unicef, segir í samtali við Fréttablaðið að fyrirmynd þessarar skýrslu sé árleg alþjóðleg úttekt Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna. „Það er okkar trú að hægt sé að mæla gæði samfélags á því hversu vel þar er hugsað um börn. Þetta er því tilraun til að meta hvernig við stöndum okkur og hvað við getum gert betur.“

 

Stefán segir skýrsluna leiða margt jákvætt í ljós á hinum ýmsu sviðum. „Við sjáum til dæmis sterkt heilbrigðiskerfi og áhrifaríkar forvarnir gegn áfengis- og tóbaksneyslu.“

 

Þar vísar Stefán meðal annars í að ungbarnadauði er hvergi í heiminum lægri en einmitt hér á landi og að reykingar og áfengisdrykkja barna hefur dregist verulega saman síðustu ár.

 

„Hins vegar er sláandi að sjá hvað kynferðislegt ofbeldi gegn börnum er víðtækt, og það er tvímælaust ein af helstu ógnunum við velferð barna hér á landi. Við sjáum til dæmis að 13 prósent stúlkna verður fyrir kynferðislegu ofbeldi fyrir 18 ára aldur. Það er ótrúlegur fjöldi.“

 

Stefán segir einnig að skýrslan leiði í ljós skort á opinberum forvarnaraðgerðum gegn kynferðisofbeldi. „Það er mikið unnið í grasrótinni og ýmsum félagasamtökum og það fólk á heiður skilinn. En þó opinberir aðilar hafi gert margt gott í viðbrögðum eftir að svona dæmi koma upp, hafa þau ekki markað sér skýra forvarnastefnu.“

 

Það væri eðlilegt, að sögn Stefáns þar sem opinberir aðilar hafi í gegnum árin beitt sér með góðum árangri í forvörnum gegn öðrum ógnum sem steðja að börnum, til dæmis slysum og notkun tóbaks og áfengis.

 

„Þessi ógn er ekki síðri. Það er því mikilvægt að meiri fjármunir séu settir í forvarnir og mörkuð skýr stefna.“

 

Annað sem skýrslan leiðir í ljós er að hér á landi hafa ekki verið gerðar reglulegar heildstæðar kannanir á aðstæðum barna. Stefán segir að þó að lykiltölur sé að finna af ákveðnum sviðum, sé margt sem vanti upp á.

 

„Tölur og greining á ákveðnum þáttum, svo sem ofbeldi, fátækt og misskiptingu í samfélaginu liggja ekki fyrir, en það er ekki síður mikilvægt að fylgjast með því en til dæmis vísitölu neysluverðs.“

 

Stefán segir að lokum að hér á landi sé mikið lagt upp úr því að gera hlutina vel sem snúa að börnum.  „Það er mikill vilji hjá stjórnvöldum og fagaðilum til að gera vel. Þess vegna erum við að setja þessa skýrslu fram sem jákvætt innlegg í þessa umræðu og vonumst til að það hjálpi til að gera enn betur.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×