Innlent

Forsætisráðherra sitji ekki lengur en í tíu ár

Stjórnlagaráð smíðar nú mikinn bálk í stjórnarskrána um auðlindir og umhverfisvernd.
Stjórnlagaráð smíðar nú mikinn bálk í stjórnarskrána um auðlindir og umhverfisvernd. Mynd/GVA
Stjórnlagaráð hefur lagt til róttækar breytingar á stjórnarskrárákvæðum um ríkisstjórnina og ekki síst starf og skipan forsætisráðherra. Ef breytingarnar verða að veruleika getur forsætisráðherra ekki setið lengur en í tíu ár, eða tvö og hálft kjörtímabil. Það er B-nefnd ráðsins sem lagði tillögurnar fram til kynningar á tíunda fundi ráðsins í gær.

 

Í þeim eru ýmis nýmæli. Til dæmis er lagt til að það verði ekki lengur hlutverk forsetans að skipa ráðherra, heldur muni Alþingi kjósa forsætisráðherra og hann skipaður formlega af forseta þingsins. Forsætisráðherrann hefði síðan sjálfur formlegt skipunarvald í sína ríkisstjórn.

 

Samkvæmt tillögunni yrði það þingforsetans að bera upp tillögu um forsætisráðherra eftir samráð við þingflokka. Yrði tillögu hans hafnað skyldi hann bera upp aðra tillögu, en væri tillögum hans hafnað í fjórgang þyrfti að rjúfa þing og boða til nýrra kosninga. „Verður að ætla að sú tilhögun skapi sterkan hvata fyrir þingið að koma sér saman um forsætisráðherra,“ segir í skýringu B-nefndar.

 

Tillagan um tíu ára hámarkssetu forsætisráðherra í embætti er rökstudd með því að valdþreyta geri vart við sig með tímanum, menn „staðni í embættum og hvatar til nýjunga og endurnýjunar slævist.“ Tíu ára markið var málamiðlun á milli þeirra sem vildu takmarka setuna annars vegar við átta ár og hins vegar við tólf ár.

Einnig var rætt að takmarka tímann sem aðrir ráðherrar gætu setið í embætti en slík tillaga hefur ekki komið fram. Ekki var hins vegar almennur vilji fyrir að takmarka setutíma þingmanna.

 

Þá er lagt til að þingmenn geti lagt fram vantrauststillögu á alla ráðherra, en vantrauststillögu á forsætisráðherra verði þó að fylgja tillaga um eftirmann sem tæki við ef vantraust yrði samþykkt og myndaði þá nýja ríkisstjórn. A-nefnd ráðsins lagði einnig fram tillögur til kynningar á fundinum um breytingar á mannréttindakafla stjórnarskrárinnar.

 

Helstu tíðindin þar eru ákvæði um eignarrétt þjóðarinnar á náttúruauðlindum til lands og sjávar, náttúru- og dýravernd og skylda hins opinbera til að halda almenningi upplýstum um áhrif framkvæmda á umhverfið og tryggja að almenningur geti tekið þátt í undirbúningi slíkra ákvarðana.

 

stigur@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×