Innlent

Flestir vilja kvótann í ríkiseigu

Mynd/Getty Images-Nordic Photos
Litlar breytingar hafa orðið á afstöðu almennings til mögulegra breytinga á fiskveiðistjórnunarkerfinu samkvæmt könnun MMR. Ríflega tveir þriðju landsmanna, 67,5 prósent, vilja að kvótinn verði í eigu ríkisins.

 

Þetta er örlítið hærra hlutfall en í sambærilegri könnun MMR sem gerð var í febrúar síðastliðnum. Þá sögðust 66,6 prósent þeirrar skoðunar.

 

Svipað hlutfall, 71,4 prósent, segist vilja að þeir sem fái úthlutað kvóta eigi að greiða leigu til ríkisins sem endurspegli markaðsverðmæti kvótans. Mun færri, um 20,8 prósent, vilja að þeir sem fái úthlutað kvóta greiði leigu sem nemur rekstarkostnaði þeirra ríkisstofnana sem þjónusta sjávarútveginn.

 

Hlutfallslega fáir, um 15,6 prósent, segjast vilja að núverandi handhafar kvótans eigi að fá að halda honum óskertum. Enn færri, eða um 10,1 prósent, vilja að þeir sem fá úthlutað kvóta eigi að fá að ráðstafa honum að vild, þar með talið að selja hann, leigja og veðsetja.

 

Talsverður munur var á afstöðu fólks eftir því hvaða flokk það sagðist styðja. Stuðningsmenn Samfylkingarinnar og Vinstri grænna eru hlynntari því að kvótinn verði í eigu ríkisins en stuðningsmenn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks.

Könnun MMR var gerð dagana 9. til 12. maí. Alls tóku 837 einstaklingar á aldrinum 18 til 67 ára þátt í könnuninni. Þátttakendur endurspegluðu lýðfræðilega samsetningu þjóðarinnar. Afstöðu tóku á bilinu 73,7 til 82,2 prósent, misjafnt eftir spurningum. - bj




Fleiri fréttir

Sjá meira


×