Innlent

Karlailmur úr Vatnajökli

Sigrún Lilja og fyrirtæki hennar Gyðja Collection hyggst markaðssetja karlailm sem unnin er úr vatni úr Vatnajökli.
Sigrún Lilja og fyrirtæki hennar Gyðja Collection hyggst markaðssetja karlailm sem unnin er úr vatni úr Vatnajökli.
„Herrailmurinn gefur íslensku körlunum okkar sem og þeim erlendu kost á því að njóta þessarar karlmannlegu orku sem Vatnajökull gefur frá sér," segir Sigrún Lilja Guðjónsdóttir, framkvæmdastjóri Gyðju Collection.

 

Gyðja hyggst setja karlailminn VJK Vatnajökull á markað, en þetta er annað ilmvatnið frá fyrirtækinu. Var það nefnt eftir Eyjafjallajökli og sett á markað í kjölfarið á gosinu í fyrra. Karlailmurinn hefur verið í þróun síðustu mánuði, en þegar gosið í Grímsvötnum hófst töldu Sigrún og félagar að það væri tími til kominn að segja frá honum.

 

„Vatnajökull er stærsti jökull Evrópu og hann umlykur mjög kraftmikil og karlmannleg orka. Þetta er ofboðslega orkumikill jökull," segir Sigrún. „Ilmurinn verður unninn upp úr tæru jökulvatni frá þessum stórkostlega jökli og kraftmikla náttúruundri."

 

Þegar Gyðja fór af stað með fyrsta ilmvatnið úr Eyjafjallajökli var stofnaður styrktarsjóður með björgunarsveitinni Landsbjörg. Sjóðurinn er sérstaklega ætlaður konum í björgunarsveitum og rennur hluti af ágóða af öllum seldum ilmvötnum í þennan sjóð. Ilmvatnið er framleitt í Suður Frakklandi og fer á markað í haust. „Herrailmurinn verður afhjúpaður í haust uppi á Vatnajöklinum með hópi íslenskra karlmanna," segir Sigrún. „Það hefur ekki verið endanlega ákveðið hvaða karlmaður verður andlit herrailmsins en það verður að sjálfsögðu íslenskur víkingur sem við teljum geta haldið nafni jökulsins og ilmsins á lofti hérlendis og erlendis.

- afb




Fleiri fréttir

Sjá meira


×