Innlent

Póstmenn búnir að semja

Mynd/Teitur Jónasson
Póstmannafélag Íslands undirritaði í dag nýjan kjarasamning við Íslandspóst. Samningurinn felur í sér sambærilegar launahækkanir og aðildarfélög ASÍ sömdu um fyrr í mánuðnum.

Lögð var áhersla á hækkun lægstu launa sem verður framkvæmd með svonefndri launatryggingu. „Við gildistöku samningsins skal öllum félagsmönnum tryggð 182.000 kr. lágmarkslaun eftir fjögurra mánaða starf. Ef hækkun launa í viðkomandi flokki með 4,25% hækkun nær ekki 12.000 kr. mun launaflokkurinn hækka sem nemur þeirri upphæð. Með þeim hætti munu laun þeirra lægst launuðu hlutfallslega hækka mest,“ segir á vef BSRB.

Samningurinn verður kynntur félagsmönnum á morgun og verða atkvæðaseðlar jafnframt sendir út. Póstmannafélagið hyggst kynna niðurstöður atkvæðagreiðslunnar föstudaginn 27. maí.

Verði samningurinn samþykktur fá félagsmenn eingreiðslu 1. júní að fjárhæð 50 þúsund krónur. „Tvær aðrar eingreiðslur bætast við þ.e. eingreiðsla á orlofsuppbót að fjárhæð 10.000 kr. sem greiðist 1. júlí n.k. og eingreiðsla við desemberuppbót að fjárhæð 15.000 kr. að því gefnu að samningurinn gildi til 31. janúar 2014 en það mun skýrast 22. júní n.k.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×