Innlent

Dómsmál skapa óvissu um útgreiðslur úr þrotabúi Landsbankans

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Landsbanki Íslands. Mynd/ Rósa.
Landsbanki Íslands. Mynd/ Rósa.
Alls óvíst er hvenær verður nákvæmlega hægt að byrja að greiða út úr þrotabúi Landsbankans. Það er háð því að Hæstiréttur komist að þeirri niðurstöðu að innistæður séu forgangskröfur líkt og neyðarlögin gerðu ráð fyrir og að neyðarlögin haldi að öðru leyti.

„Það verður ekki hægt að byrja að greiða út úr búinu fyrr en búið er að eyða allri réttaróvissu um forgangskröfur. Það er bara þegar Hæstiréttur hefur fellt sína dóma í þeim ágreiningsefnum sem uppi eru um forgangskröfurnar," segir Páll Benediktsson, upplýsingafulltrúi skilanefndar Landsbankans. Þar á Páll við smásöluinnlán, sem eru í daglegu tali kölluð Icesave innlán, heildsöluinnlán og um neyðarlögin. „Það er ekki fyrr en búið er að eyða þeirri réttaróvissu að hægt er að byrja að borga út úr búinu," segir Páll. Héraðsdómur Reykjavíkur hefur þegar kveðið upp dóm um að heildsöluinnlánin væru forgangskröfur. Samkvæmt þeim dómi standast neyðarlögin stjórnarskrá. Þeim dómi hefur verið áfrýjað. Þá eru dómsmál sem varða smásöluinnlán fyrir héraðsdómi.

Samkvæmt heimildum Vísis er ekki útilokað að búið verði að dæma í öllum þessum málum fyrir sumarlok. Páll vill þó ekkert segja til um það. „Bankinn veit ekkert hvenær dómstólarnir klára þessi mál. Það er dómstólanna að segja fyrir um það," segir Páll.

Forseti Íslands og oddvitar ríkisstjórnarinnar hafa sagt að gert væri ráð fyrir að útgreiðslur úr þrotabúinu hæfust á þessu ári. Hefur forsetinn í þessu samhengi bent á að um 9 milljarðar bandaríkjadala, eða 1000 milljarða króna, greiðslur kunni að vera að ræða.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×