Lífið

Spennandi tónlistarkokkteill

Söngvarinn Tunde Adebimpe er annar af stofnmeðlimum hljómsveitarinnar TV on the Radio sem var að senda frá sér nýja plötu.
nordicphotos/getty
Söngvarinn Tunde Adebimpe er annar af stofnmeðlimum hljómsveitarinnar TV on the Radio sem var að senda frá sér nýja plötu. nordicphotos/getty
TV on the Radio frá Brooklyn í New York hefur gefið út plötuna Nine Types of Light. Hljómsveitin er þekkt fyrir að hrista saman ýmsar tónlistarstefnur í litríkan og bragðgóðan kokkteil.

Bandaríska hljómsveitin TV on the Radio hefur frá upphafi blandað saman ýmsum tónlistarstefnum, þar á meðal rokki, fönki, danstónlist, djassi og sálartónlist með athyglisverðum árangri. Nýjasta hljóðversplata sveitarinnar, Nine Types of Light, er nýkomin út og fylgir hún eftir hinni vel heppnuðu Dear Science sem kom út fyrir þremur árum.

TV on the Radio var stofnuð í Brooklyn í New York árið 2001 af söngvaranum Tunde Adebimpe, sem er ættaður frá Nígeríu, og gítar- og hljómborðsleikaranum David Andrew Sitek. Fyrsta platan, Ok Calculator, kom út árið 2002 og var gefin út af þeim Adebimpe og Sitek. Skömmu síðar gekk Kyp Malone til liðs við þá félaga og út kom EP-platan Young Liars sem fékk fínar viðtökur gagnrýnenda. Á svipuðum tíma spilaði TV on the Radio á Iceland Airwaves hátíðinni þar sem hún sýndi og sannaði að stórir hlutir væru í vændum.

Árið 2004 kom út fyrsta „alvöru“ hljóðversplata sveitarinnar, Desperate Youth, Blood Thirsty Babes, og hlaut hún hin virtu Shortlist-tónlistarverðlaun í Bandaríkjunum. Tilnefningar til þeirra fá þær plötur sem hafa selst undir hálfri milljón eintaka og hlaut til að mynda Sigur Rós þessi sömu verðlaun fyrir Ágætis byrjun þegar þau voru fyrst veitt 2001.

Næsta hljóðsversplata TV on the Radio, Return to Cookie Mountain, kom út 2006. Hún fékk mjög góða dóma og var kjörin plata ársins af tímaritinu Spin. Góðir gestir komu þar við sögu, meðal annars David Bowie, sem hafði áður lýst yfir aðdáun sinni á sveitinni. Fjórða platan, Dear Science, kom svo út tveimur árum síðar. Hún hlaut enn betri dóma og jók vinsældir TV on the Radio til muna. Rolling Stone, Pitchfork, Spin og Guardian hrifust af innihaldinu og völdu Dear Science bestu plötu ársins.

Árið 2009 tilkynnti Tunde Adebimpe að TV on the Radio ætlaði í árs frí. Sama ár gaf Kyp Malone út sólóplötu undir nafninu Rain Machine og sólóplata frá Dave Sitek kom einnig út undir nafninu Maximum Balloon þar sem Karen O úr Yeah Yeah Yeahs og David Byrne úr Talking Heads voru á meðal gesta.

Upptökur á Nine Types of Light hófust síðan í fyrra í heimahljóðveri Siteks í Los Angeles en þangað flutti hann til að breyta um umhverfi. Platan hefur fengið góða dóma eins og fyrri verk sveitarinnar. Fjórar stjörnur af fimm mögulegum hjá Rolling Stone, Uncut og Spin bera vott um að hljómsveitin sé enn á meðal þeirra allra fremstu þegar tilraunakennd og margslungin tónlist er annars vegar.

freyr@frettabladid.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×