Innlent

Hundruð jarðskjálfta mældust á Norðurlandi

Mynd úr safni.
Mynd úr safni.
Nokkur hundruð jarðskjálftar hafa mælst á Norðurlandi frá því í gærkvöldi. Sá stærsti, að stærðinni 5,2, varð um hálftvöleytið í nótt en sá fannst um allt Norðurland og víðar.

Um tíu skjálftar hafa verið yfir þrír að stærð og mældist einn þrír komma fimm nú rétt fyrir sjö í morgun. Engar tilkynningar hafa borist um slys á fólki eða tjón á eignum en skjálftarnir, sem eiga upptök sín um tuttugu kílómetra norðaustur af Siglufirði, eru svokallaðir brotaskjálftar á þekktu jarðskjálftasvæði og ekki undanfari eldsumbrota að sögn Gunnars B. Guðmundssonar, jarðeðlisfræðings hjá Veðurstofu Íslands.

Heldur hefur dregið úr tíðni skjálftanna frá því klukkan hálf átta en Gunnar segist allt eins eiga von á að hrinan taki sig upp aftur og að ekki sé hægt að útiloka fleiri skjálfta yfir fjóra að stærð. Þá megi búast við eftirskjálftum næstu daga og jafnvel vikur. Jarðskjálftavakt Veðurstofunnar fylgist með framvindu hrinunnar í samvinnu við almannavarnadeild ríkislögreglustjóra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×