Körfubolti

NBA í nótt: Oklahoma City komið í 2-0 á móti Lakers - Boston vann

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Kevin Durant.
Kevin Durant. Mynd/AP
Tveir leikir fóru fram í úrslitakeppni NBA-deildarinnar í körfubolta í nótt. Oklahoma City Thunder er komið í 2-0 á móti Los Angeles Lakers í einvígi liðanna í Vesturdeildinnni eftir 77-75 heimasigur og Boston Celtics komst í 2-1 á móti Philadelphia 76ers eftir öruggan 107-91 útisigur.

Kevin Durant tryggði Oklahoma City Thunder 77-75 sigur á Los Angeles Lakers 18 sekúndum fyrir leikslok en Thunder-liðið skoraði níu síðustu stig leiksins. Lakers var sjö stigum yfir þegar aðeins tvær mínútur voru eftir.

Oklahoma City Thunder er þar með komið í 2-0 en næstu tveir leikir verða í Los Angeles, sá fyrri á föstudagskvöldið.

Russell Westbrook skoraði 15 stig fyrir Oklahoma City en Kobe Bryant og Andrew Bynum voru báðir með 20 stig hjá Lakers.

Kevin Garnett átti stórleik þegar Boston Celtics vann sannfærandi 16 stiga útisigur á Philadelphia 76ers, 107-91, og komst þar með í 2-1 í einvígi liðanna í Austurdeildinni. Garnett var með 27 stig og 13 fráköst í leiknum en hann skoraði 13 af 32 stigum Boston í öðrum leikhlutanum.

Rajon Rondo var með 23 stig og 14 stoðsendingar og Paul Pierce bætti við 24 stigum og 12 fráköstum. Sixers áttu ekki mikla möguleika á móti þessum öllum þremur í ham. Thaddeus Young skoraði mest fyrir Philadelphia eða 22 stig.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×