Badmintonkempan Peter Gade lagði í gærkvöldi spaðann formlega á hilluna eftir kveðjuleik gegn Kínverjanum Lin Dan í Kaupmannahöfn.
Peter Gade sigraði Kínverjann í leiknum sem settur var á til heiðurs Dananum 36 ára. Gade átti erfitt með að leyna tilfinningum sínum í viðtali við TV2 í leikslok.
„Ég naut þessarar stundar. Það hefur mikla þýðingu fyrir mig að hafa fengið þennan kveðjuleik. Ég er bæði hrærður og stoltur. Kærar þakkir fyrir mig," sagði Gade við áhorfendur sem klöppuðu honum lof í lófa.
Þrátt fyrir tilfinningaþrungna stund hélt Gade andlitinu þar til hann var spurður út í dætur sínar tvær.
„Þú mátt ekki spyrja út í stelpurnar mínar þegar mér hefur tekist að halda aftur tárunum," sagði Gade á léttu nótunum með kökk í hálsinum.
„Nú er kominn tími til að ég einbeiti mér að dætrunum. Verja tíma með þeim og skapa nýtt líf þar sem ég gegni ekki hlutverki badmintonspilara. Ég hlakka til þess," sagði Gade.
Gade varð fimm sinnum Evrópumeistari í einliðaleik karla og spilaði á fjórum Ólympíuleikum, sínum síðustu í sumar. Hans besti árangur á leikunum var fjórða sæti í Sydney árið 2000.
Sport