Íslenski boltinn

Njarð­vík og ÍR fögnuðu bæði tveimur sigrum í kvöld

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ísak Daði Ívarsson skoraði
Ísak Daði Ívarsson skoraði @irfotbolti

Njarðvík, ÍR og Grótta tryggðu sér í kvöld sæti í 32 liða úrslitum Mjólkurbikars karla í fótbolta.

Njarðvíkingar og ÍR-ingar voru að spila á sama tíma og körfuboltalið félagsins og þetta var frábært kvöld fyrir bæði félög því allir fjórir leikirnir unnust. Njarðvík og ÍR tryggðu sér fjórða leikinn í úrslitakeppni Bónus deildar karla í körfubolta og fótboltalið félaganna unnu bæði 5-0 sigur í bikarnum.

ÍR vann 5-0 útisigur á Augnabliki. Kristján Atli Marteinsson skoraði eina mark fyrri hálfleiks á nítjándu mínútu en Breiðhyltingar bættu við fjórum mörkum í seinni hálfleiknum.

Mörkin í seinni hálfleik skoruðu Ágúst Unnar Kristinsson, Ísak Daði Ívarsson, Bergvin Fannar Helgason og Hákon Dagur Matthíasson.

Njarðvíkingar unnu 5-0 sigur á BF 108 á gervigrasinu við Nettóhöllina.

Oumar Diouck skoraði tvö fyrstu mörkin á fyrstu átján mínútunum og BF 108 missti svo mann af velli með rautt spjald á 33. mínútu.

Valdimar Jóhannsson skoraði þriðja markið á 51. mínútu og þeir Sigurjón Már Markússon og Tómas Bjarki Jónsson skoruðu svo tvö síðustu mörkin.

Grótta vann 2-1 heimasigur á Víðsmönnum á Seltjarnarnesinu. Dagur Bjarkason kom Gróttu í 1-0 á 77. mínútu en Markús Máni Jónsson jafnaði á 90. mínútu. Kristófer Dan Þórðarson tryggði Gróttu áfram með því að skora sigurmarkið á annarri mínútu í uppbótatíma.

Njarðvík mætir Stjörnunni á útivelli í 32 liða úrslitum, Grótta verður á heimavelli á móti Skagamönnum og ÍR fer norður og spilar við Þór Akureyri.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×