Fótbolti

Lennon: Barcelona-liðið er ekki bara byggt í kringum Messi

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Celtic tekur á móti stórliði Barcelona í Meistaradeildinni í kvöld en það munaði ótrúlega litlu að Celtic-menn tækju með sér stig frá Nývangi í síðustu umferð. Börsungar skoruðu þá sigurmarkið á fjórðu mínútu í uppbótartíma. Neil Lennon, stjóri Celtic, lofaði Barca-liðið á blaðamannafundi fyrir leikinn á Celtic Park í kvöld en þarna mætast tvö efstu lið riðilsins.

„Ég er búinn að horfa marga á leiki með Barcelona undanfarin ár og þá er liðið ávallt með boltann 70 prósent af leikjunum og skiptir þá ekki máli hvort liðið sé á heimavelli eða á útivelli. Jafnvel þegar þeir eru að spila við Real Madrid eða Chelsea þá ná þeir stundum að vera með boltann 80 prósent. Það er engin ástæða fyrir okkur að búast við því að vera mikið með boltann í leiknum," sagði Neil Lennon.

„Þeir eru besta liðið í heimi að halda bolta innan liðsins og hafa sannað það hvað eftir annað á hæsta getustigi undanfarin sjö til átta ár. Liðið er ekki bara byggt í kringum Messi þótt að hann sé mjög sérstakur leikmaður. Liðið er líka með menn eins og Xavi, Fabregas, Iniesta, Pedro Sanchez sem eru alltaf mjög hættulegir leikmenn. Það vilja allir fá að reyna sig á móti þeim bestu og þá ná menn oft sínu besta fram," sagði Lennon en það er hægt að sjá viðtali með því að smella hér fyrir ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×