Tónlist

Ásgeir Trausti seldist upp á sex dögum

Ásgeirs Trausta, platan Dýrð í dauðaþögn, seldist í um þúsund eintökum á sex dögum.
Ásgeirs Trausta, platan Dýrð í dauðaþögn, seldist í um þúsund eintökum á sex dögum. Fréttablaðið/valli
„Hann er með þennan x-faktor sem allir eru að leita að og hann nær til breiðs hóps fólks,“ segir Eiður Arnarsson, útgáfustjóri Senu, um velgengni frumraunar tónlistarmannsins Ásgeirs Trausta, plötunnar Dýrð í dauðaþögn.

Platan er uppseld í flestum verslunum landsins en hún kom út á þriðjudaginn í síðustu viku. Eiður segir þetta vera frábæra byrjun á ferli Ásgeirs sem er greinilega rísandi stjarna í íslenskum tónlistarheimi. „Gróflega myndi ég áætla að um þúsund eintök hafi selst fyrstu sex dagana sem er svakalega gott. Fyrst þegar ég sá þessar tölur fór ég að hugsa hvort þetta væri ekki með betri upphafsvikum íslensks tónlistarmanns,“ segir Eiður en fleiri eintök af plötunni eru væntanleg í verslanir eftir helgi. „Í kjölfarið á þessari velgengni fór ég til dæmis að skoða hversu mikið Of Monsters and Men seldu af plötum fyrstu útgáfuviku sína í fyrra. Ásgeir Trausti tvöfaldar þeirra tölur.“ Lögin Sumargestur og Leyndarmál hafa lagst vel í landsmenn og notið vinsælda. Eiður segist því hafa fundið spennu fyrir tónlistarmanninum og haft á tilfinningunni að platan myndi seljast vel áður en hún kom út. „Ég pantaði annað upplag fjórum dögum áður en platan kom út. Það hef ég ekki gert áður á mínum fimmtán ára ferli sem útgáfustjóri. Maður er nú vanur að stíga varlega til jarðar í þessum bransa.“

Dýrð í dauðaþögn er nú í fyrsta sæti Tónlistans og hefur fengið einróma lof gagnrýnenda. Platan fékk fjórar stjörnur hjá Trausta Júlíussyni, gagnrýnanda Fréttablaðsins, sem sagði hana óskabyrjun á ferlinum. „Ásgeir Trausti er bæði hægur og hógvær og það fær tónlistina til að skína í gegn og tel ég það vera eina af ástæðunum fyrir velgengninni.“ -áp






Fleiri fréttir

Sjá meira


×