Innlent

Komin með nóg af mannanafnalögum

BBI skrifar
Bloggarinn Eva Hauksdóttir og Jón Gnarr borgarstjóri eru sammála um að mannanafnalög séu öðrum lögum kjánalegri og réttast sé að nema þau úr gildi.

„Þetta eru einhver mestu ólög sem finnast hér á landi á. Ekki eru þau bara kjánaleg heldur mismuna þau fólki," segir Jón Gnarr í athugasemd sem hann skrifaði við pistil Evu á Eyjunni.

„Mannanafnalög eru öðrum lögum fávitalegri," segir Eva í pistlinum og telur eina tilgang þeirra felast í íhaldssemi. Henni finnst réttast að afnema lögin og fá mannanafnanefnd það hlutverk að vera ráðgefandi fyrir foreldra sem vilja t.d. leiðsögn í stafsetningu.

„Þegar úrskurðir mannanafnanefndar eru skoðaðir nokkur ár aftur í tímann kemur í ljós að eina reglan sem raunverulega er virt er hefðarreglan," segir Eva.

„Þegar þessi lög falla úr gildi munum við sjálfkrafa hækka um menningarstig," segir Jón og bætir við að þau séu í dag orðin „svo úrsérgengin að jaðrar við súrrealisma."

Eva segir að ef foreldrar ákveði að velja nafn sem verður barninu til ama þá eigi slík mál að rata til barnaverndaryfirvalda. Mannanafnalög séu óþörf í því ljós og auk þess telur hún reglurnar nú þegar bjóða upp á „svo fíflalegar samsetningar að þeir sem endilega vilja gera brandara úr nöfnum barna sinna ættu ekki að vera í neinum vandræðum með að gera það samkvæmt núgildandi lögum."

Eva Hauksdóttir.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×