Sport

Vala Rún skautakona ársins

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Vala Rún fyrir miðju.
Vala Rún fyrir miðju.
Vala Rún B. Magnúsdóttir hefur verið kjörin skautakona ársins af Skautasambandi Íslands. Vala Rún hafnaði í fyrsta sæti á Bikarmóti ÍSS og öðru sæti á Íslandsmóti ÍSS. Þá hafnaði hún í fyrsta sæti í stúlknaflokki á Reykjavík International Games.

Nánari samantekt Skautasambandsins á árinu hjá Völu Rún má sjá hér að neðan.

Vala Rún hefur tekið þátt í öllum mótum hérlendis á árinu, fyrir utan Haustmót ÍSS, en þá átti hún við meiðsli að stríða. Vala Rún tók einnig þátt í öllum þeim mótum erlendis sem henni bauðst að taka þátt í á vegum Skautasambands Íslands og stóð sig þar með ágætum.

Vala Rún byrjaði árið 2012 með því að taka þátt á Reykjavík International Games og var í fyrsta sæti í Stúlknaflokki A (Advanced Novice). Á Norðurlandamóti í Finnlandi í febrúar náði hún 11. sæti, sem er besti árangur sem íslenskur listhlaupaskautari hefur náð á Norðurlandamóti. Vetrarmót ÍSS 2012 var haldið í lok febrúar og þar keppti Vala Rún í Unglingaflokki A (Junior) í fyrsta skipti og hreppti þar fyrsta sæti. Vala Rún toppaði síðan árangur sinn á Reykjavíkurmótinu 2012 í apríl með því að lenda í fyrsta sæti með yfir 90 stig.

Með frábærum árangri á vorönn tryggði Vala Rún sér sæti á Junior Grand Prix sem var haldið í Linz í Austuríki í september síðast liðinn og skilaði þar besta skori Íslendinga fram að því. Vala Rún hefur síðan haldið ótrauð áfram það sem af er þessum vetri og sannað sig sem einn af efnilegstu skauturum okkar Íslendinga í dag. Á Bikarmóti ÍSS 2012 náði hún fyrsta sæti og öðru sæti á Íslandsmóti ÍSS 2012.

Vala Rún er til fyrirmyndar í alla staði sem íþróttamaður og hefur alla tíð lagt sig hundrað prósent fram í sínum æfingum og sem keppandi. Stjórn Skautasambands Íslands óskar henni til hamingju með titilinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×