Erlent

Framdi sjálfsmorð eftir að hundinum var lógað

Nick Santino ásamt hundinum Rocco. Þeir voru bestu vinir.
Nick Santino ásamt hundinum Rocco. Þeir voru bestu vinir.
Bandaríski leikarinn Nick Santino fannst látinn í svefnherbergi sínu á miðvikudaginn en hann framdi sjálfsmorð með því að taka inn of mikið af pillum. Daginn áður dó besti vinur hans, hundurinn Rocco.

Santino lét lóga Rocco eftir að hafa staðið í deilum við nágranna sína í mörg ár. Nágrannarnir voru ekki sáttir við veru Rocco í blokkinni og á síðasta ári settu þeir húsreglur þess efnis að ekki mætti vera með pitbull-hunda í blokkinni, en Rocco var af þeirri tegund.

Hann hundsaði þessar reglur enda hélt hann því fram að enginn ófriður væri af Rocco. Nágranni hans segir við fjölmiðla að það sé rétt. „Ég heyrði aldrei hundinn gelta en það voru sumir hérna sem sögðu við mig að hann gæti hugsanlega gelt."

Nágrönnunum var greinilega illa við að hafa hundinn í blokkinni. Fyrr í mánuðinum var hann svo sektaður um 200 dollara af húsfélaginu fyrir að brjóta reglurnar. Hann sá fram á að hann gæti ekki staðið í þessu stríði lengur og lét lóga Rocco á 47 ára afmælisdegi sínum, á þriðjudaginn í síðustu viku.

Morguninn eftir hringdi Santino í fyrrum kærustu sína og sagði að hann gæti þetta ekki lengur en þá voru nokkrir klukkutímar liðnir frá því að Rocco var svæfður. Hann var alveg miður sín og sá því miður engan annan kost en að binda enda á líf sitt.

„Í dag brást ég mínum besta vini," stóð í bréfi sem hann skildi eftir á náttborði sínu. „Rocco treysti mér og ég brást honum. Hann átti þetta ekki skilið."

Leikarinn kom fram í sjö þáttum af þáttunum „All My Children" og sex þáttum af Leiðarljósi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×