Bandaríski farsímaframleiðandinn Motorola Mobility hefur fengið lögbann á nokkrar vörur tæknifyrirtækisins Microsoft í Þýskalandi. Það var dómstóll í Mannheim sem komst að þessari niðurstöðu í dag.
Samkvæmt dómsúrskurðinum mun Microsoft hafa brotið á tveimur einkaleyfum Motorola.
Sölubannið tekur til Xbox 360 leikjatölvunnar, Windows 7 stýrikerfisins, Internet Explorer og Windows Media Player.
Bandarískir dómstólar hafa farið fram á að Motorola framfylgi ekki úrskurðinum fyrr en í næstu viku en þeir hafa málið nú til skoðunar.
Andað hefur köldu milli Microsoft og Motorola síðustu ár. Farsímafyrirtækið sakar Microsoft um að hafa brotið á allt að 50 einkaleyfum sem eru í eigu Motorola.
Talsmaður Microsoft sagði í dag að fyrirtækið muni áfrýja dóminum.
