Skoðun

Umræða um einelti á vitlausri braut

Matthías Freyr Matthíasson skrifar
Ég hugsa að það sé best að ég komi með fyrirvara hér. Einelti er nokkuð sem enginn einstaklingur ætti að þurfa að ganga í gegnum. Það er viðurstyggð og þjóðfélagið allt þarf að taka sig saman í andlitinu.

Að því sögðu er ég á því að umræðan um einelti sé á miklum villigötum.

Ég sem einstaklingur upplifði einelti mestalla mína grunnskólagöngu. Ég veit um hvað ég er að tala en ætla þó ekki að halda því fram að ég sé alvitur þegar kemur að þessum efnum. Langt því frá. Takið eftir að ég tala ekki og mun aldrei tala um mig sem fórnarlamb eineltis.

Eigið fórnarlamb

Ég lít ekki á mig í dag sem fórnarlamb, þeir tímar eru sem betur fer löngu löngu liðnir. Ég hugsa að ég hafi mest í gegnum tíðina verið mitt eigið fórnarlamb – ég var svo fastur í „eineltisfórnarlambshugsuninni" að ég leyfði mér ekki að losna við mitt sjálfskaparvíti fyrr en ég varð 22 ára gamall. Þegar ég sé alla þá umræðu sem kemur öðru hverju upp í fjölmiðlum um einelti og afleiðingar þess svíður mig þó í hjartað. Ég finn til einhverrar óútskýrðrar samkenndar til handa þeim sem þó sýna kjark sinn og stíga fram og segja frá sögu sinni. En mig svíður jafnvel meira að sjá sum þau komment sem koma fram í kommentakerfum fjölmiðlanna.

Þar er fullorðið (mis-fullorðið) fólk að missa sig í bræði og ógeðslegu orðbragði, komið með heygafflana á loft og tilbúið að taka „gerendurna" og framkvæma hatursfulla hluti gagnvart þeim. Við munum aldrei ná langt í baráttunni gegn einelti ef við höldum umræðunni alltaf á þessum nótum og ef við einsetjum okkur alltaf að finna gerendurna og „refsa" þeim. Með þessum orðum mínum er ég þó ekki að fría gerendurna og segja að þeir séu englar! En ég er að segja að við þurfum að breyta þessum hugsunarhætti til þess að ná áfram.

Einnig er ekki nóg að útrýma einelti úr grunnskólum. Einelti á vinnustöðum fullorðsins fólks er gríðarlega algengt. Það finnst mér erfiðara að skilja!




Skoðun

Skoðun

Kona, vertu ekki fyrir!

Elín Björg Jónsdóttir,Halldóra Sigríður Sveinsdóttir,Hrafnhildur Lilja Harðardóttir skrifar

Sjá meira


×