Fastir pennar

253.769 vondir fjármagnseigendur

Ólafur Þ. Stephensen skrifar
Ríkisstjórnin fer fram með sérkennilegum og fullkomlega ábyrgðarlausum hætti gagnvart lífeyrissjóðunum í landinu.

Það gerist með kröfum um að þeir geri þrennt; taki þátt í að afskrifa lán, jafnvel þótt þeir telji sig geta innheimt þau, falli frá lánsveðum sem sett hafa verið til tryggingar lánum frá sjóðunum og taki þátt í að fjármagna stórverkefni á vegum stjórnvalda. Fréttablaðið sagði frá því í fyrradag að ríkisstjórnin íhugaði að setja lög til að þvinga sjóðina til að gera eins og henni finnst að þeir eigi að gera. Björn Valur Gíslason, formaður fjárlaganefndar Alþingis, hafði í alveg grímulausum hótunum við þá í frétt á forsíðu blaðsins.

Talsmenn ríkisstjórnarinnar hafa mikið kvartað undan því að lífeyrissjóðirnir „geri ekki sitt" til að leysa úr skuldavanda afmarkaðs hóps landsmanna og „taka þátt í endurreisninni" með því að lána í stórverkefni. Eins og svo oft áður taka stjórnmálamennirnir kolrangan pól í hæðina og eru í raun að leggja til að langtímahagsmunum mikils meirihluta þjóðarinnar sé fórnað í þágu sérhagsmuna lítils hóps og pólitískra markmiða til skamms tíma.

Stjórnarliðið talar um lífeyrissjóðina eins og þeir séu í hópi vondu fjármagnseigendanna, sem sjálfsagt er að pína til hins ýtrasta. Við skulum aðeins rifja upp hverjir eiga lífeyrissjóðina. Það er fólkið í landinu, hver einasti launamaður.

Samkvæmt nýjustu tölum frá sjóðunum áttu 312.351 sjóðfélagar lífeyrisréttindi hjá þeim í ársbyrjun. Af þeim eru 253.769 með gilt heimilisfang á Íslandi, eða um 80% af skráðum íbúum landsins. Þetta eru fjármagnseigendurnir í þessu tilviki.

Við treystum öll á lífeyrissjóðina að tryggja afkomu okkar og fjölskyldu okkar þegar við verðum orðin gömul eða ef við veikjumst eða slösumst og getum ekki unnið fyrir okkur. Á stjórnendum lífeyrissjóðanna hvílir sú skylda að ávaxta fé sjóðfélaganna til þess að þeir geti staðið undir lífeyrisgreiðslum.

Sérstaklega er tekið fram í lögum um sjóðina að þeim sé ekki heimilt að inna nein önnur framlög af hendi en lífeyri. Jafnframt er féð í sjóðunum eign sjóðfélaganna og sem slíkt verndað af eignarréttarákvæðum stjórnarskrárinnar. Þeim er ekki heimilt að gefa þessar eignir eftir og þeim er ekki heimilt að fjármagna opinberar fjárfestingar sem skila lakari ávöxtun en fæst annars staðar.

Þessi laga- og stjórnarskrárákvæði eru sett af góðri ástæðu; til að vernda fé fólks fyrir óskammfeilnum puttum skammsýnna stjórnmálamanna. Þeir hafa líka aðrar leiðir til að fjármagna sín pólitísku markmið. Ef stjórnmálamenn vilja hjálpa fólki sem hefur fengið lánað veð í eign ættingja – og í þeim hópi eru vissulega margir í erfiðleikum – er hreinlegra og heiðarlegra að hækka bara skattana til að eiga fyrir aðstoð við þennan hóp.

Áðurnefndar hótanir stjórnarliðsins í garð lífeyrissjóðanna eru ekki það eina. Það má líka nefna sérstaka skattlagningu á sjóðina og tal einstakra ráðherra og þingmanna um að bezt væri að taka hér upp gegnumstreymiskerfi lífeyris í stað sjóðsöfnunarkerfisins, sem Íslendingar eru víða um heim öfundaðir af. Þetta allt samanlagt bendir sterklega til að í núverandi stjórnarmeirihluta séu fáir sem botna nokkuð í því hvernig lífeyriskerfið virkar eða til hvers það er; að tryggja langtímahagsmuni okkar allra.






×