Innlent

Kostir við tvöfalt lögheimili barna metnir

Samkvæmt nýrri þingsályktunartillögu skal innanríkisráðherra skipa starfshóp um jafnt búsetuform barna á tveimur heimilum. Hópurinn á að skila skýrslu fyrir lok næsta árs.
Samkvæmt nýrri þingsályktunartillögu skal innanríkisráðherra skipa starfshóp um jafnt búsetuform barna á tveimur heimilum. Hópurinn á að skila skýrslu fyrir lok næsta árs. Fréttablaðið/Heiða
Börn sem búa til skiptis hjá foreldrum á tveimur heimilum gætu átt þess kost að skrá lögheimili sitt á báðum stöðum innan tveggja ára, ef þingsályktunartillaga tíu alþingismanna úr öllum flokkum nema Vinstri grænum verður samþykkt.

Í tillögunni felst að innanríkisráðherra verður falið að skipa starfshóp til að gera skýrslu um það hvernig útfæra megi jafnt búsetuform barna sem búa við ofangreindar aðstæður.

Yfirlýst markmið er að eyða aðstöðumun heimila þegar foreldrar sem búa ekki saman ákveða að ala upp börn sín í sameiningu á tveimur heimilum.

Til þess skal hópurinn meta hvort rétt sé að taka upp kerfi sem heimilar tvöfalt lögheimili barna, eða stinga upp á öðru hentugra kerfi.

Starfshópurinn á að skila niðurstöðum fyrir lok næsta árs og frumvarp byggt á niðurstöðum hópsins skal lagt fram eigi síðar en á haustþingi 2014.

Í greinargerð með tillögunni segir að í löggjöfinni geti talsverður aðstöðumunur verið á foreldrum með sameiginlega forsjá. Meðal annars þar sem gert er ráð fyrir því að það foreldri sem barnið á lögheimili hjá skuli hafa töluvert meira að segja um hagi barnsins en hitt foreldrið. Þó bendi nýlegar rannsóknir til þess að líðan þeirra barna sem búa til skiptis hjá báðum foreldrum sínum á tveimur heimilum sé jafngóð og þeirra barna sem búa á einum stað hjá báðum foreldrum sínum.- þj




Fleiri fréttir

Sjá meira


×