Enski boltinn

Viðræður Hughes og QPR halda áfram á morgun

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Mark Hughes er á leiðinni í boltann á ný.
Mark Hughes er á leiðinni í boltann á ný. Nordic Photos / Getty Images
Mark Hughes hefur í dag átt í viðræðum við enska úrvalsdeildarfélagið QPR um að gerast knattspyrnustjóri félagsins. Hann segir að viðræður muni halda áfram á morgun.

Enskir fjölmiðlar greindu frá því í dag að Hughes hafi farið með umboðsmanni sínum, Kia Jorrabchian, til fundar með forráðamönnum liðsins á Loftus Road í dag. Neil Warnock var í gær rekinn úr starfi knattspyrnustjóra QPR en Heiðar Helguson er á mála hjá félaginu.

Hughes var síðast knattspyrnustjóri Fulham en hætti hjá félaginu í vor. Síðan þá hefur hann verið að leita sér að vinnu.

„Ég er ánægður með gang viðræðnanna en það er ekkert staðfest enn. Það er enn mikið sem þarf að ræða en okkur gekk mjög vel í dag. Ég mun hugsa vel og vandlega um það sem var sagt í dag og koma svo aftur á morgun," sagði Hughes við enska fjölmiðla í kvöld.

„Ég hef mikinn metnað sem knattspyrnustjóri og ég vil vera viss um að metnaður félagsins samræmist mínum. Ég hafði áhuga á það sem var sagt í dag. Þetta er áhugavert verkefni."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×