Enski boltinn

Áfrýjun Man. City tekin fyrir skömmu fyrir Liverpool-leikinn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Vincent Kompany sést hér búinn að fá rauða spjaldið frá Chris Foy.
Vincent Kompany sést hér búinn að fá rauða spjaldið frá Chris Foy. Mynd/AP
Manchester City hefur áfrýjað rauða spjaldinu sem Vincent Kompany fékk fyrir að tækla Nani í bikarleik Manchester-liðanna í gær. Kompany fékk rauða spjaldið strax á tólftu mínútu leiksins og United vann leikinn 3-2 eftir að hafa komist í 3-0 í fyrri hálfleik.

Roberto Mancini, stjóri Manchester City, gagnrýndi rauða spjaldið harðlega og flestum þykir það hafa verið mjög strangur dómur hjá dómaranum Chris Foy enda var eins og Kompany hafi bara unnið boltann af Nani.

Þetta var annað rauða spjaldið hjá Kompany á tímabilinu sem þýðir að hann er á leiðinni í fjögurra leikja bann verði rauða spjaldið staðfest af aganefnd enska sambandsins. City verður einnig án miðvarðarins Kolo Toure á næstunni því hann er upptekinn með Fílabeinsströndinni í Afríkukeppninni.

Enska sambandið hefur jafnframt gefið það út að málið verði tekið fyrir á miðvikdaginn en um kvöldið mætir City liði Liverpool í fyrri leik liðanna í undanúrslitum enska deildarbikarsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×