Fótbolti

Emil og félagar björguðu sér í lokin - 11 leikir í röð án taps

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Emil Hallfreðsson.
Emil Hallfreðsson. Mynd/Daníel
Emil Hallfreðsson og félagar í Hellas Verona unnu dramatískan 2-1 sigur á FC Modena í ítölsku b-deildinni í kvöld en þetta var ellefti leikur Verona í röð án þess að tapa. Það stefndi þó í tap því liðið var undir þegar aðeins sex mínútur voru eftir af leiknum.

Veronaliðið skoraði hinsvegar tvö mörk á síðustu fimm mínútum leiksins og tryggði sér mikilvægan sigur í baráttunni um sæti í ítölsku úrvalsdeildinni. Hellas Verona er nú í 5. sæti aðeins tveimur stigum á eftir Sassuolo sem er í 2. sætinu.

Emil var í byrjunarliði Hellas Verona eins og í hinum 20 leikjum tímabilsins og spilaði allar 90 mínúturnar í fimmtánda sinn á leiktíðinni.

Frakkinn Matthias Lepiller skoraði fyrra mark Verona á 85. mínútu og sigurmarkið skoraði Argentínumaðurinn Juan Ignacio Gomez Taleb þremur mínútum síðar. Giuseppe Greco hafði komið Modena yfir með marki úr vítaspyrnu á 35. mínútu leiksins.

Hellas Verona hefur ekki tapað deildarleik síðan um miðjan október en liðið hefur unnið níu sinnum og gert tvö jafntefli í síðustu 11 leikjum sínum í ítölsku b-deildinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×