Enski boltinn

Wenger: Henry mun spila á móti Leeds

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Thierry Henry á æfingu með Arsenal.
Thierry Henry á æfingu með Arsenal. Mynd/Nordic Photos/Getty
Arsène Wenger, stjóri Arsenal, staðfesti það í dag að franski framherjinn Thierry Henry muni spila með Arsenal-liðinu á mánudaginn þegar liðið mætir Leeds í enska bikarnum. Það verður fyrsti mótsleikur Henry í Arsenal-búningnum síðan í maí 2007.

„Ég er ánægður með að við séum búnir að ganga frá þessu með Henry því það tók nokkurn tíma að klára pappírsvinnuna. Það tókst samt loksins," sagði Arsène Wenger í viðtali á heimasíðu Arsenal.

„Hann er duglegur en á nokkuð í land hvað varðar líkamlegt form. Hann verður í góðu lagi eftir eina eða tvær vikur. Henry mun spila á móti Leeds en það verður alltof mikið fyrir hann að spila allar 90 mínúturnar," sagði Wenger.

„Samningurinn er til byrja með upp á sex og hálfa viku. Hann á síðan möguleika á því að vera lengur hjá okkur og gæti náð Meistaradeildarleiknum á móti AC Milan," sagði Wenger en AC Milan leikurinn fer fram 15. febrúar.

„Ég vonast til að hann hafi góð áhrif eins og góðir leikmenn gera. Hann getur skorað mörk og hefur sýnt það með 226 mörkum í 370 leikjum. Við viljum fyrst og fremst að hann hjálpi okkur að vinna leiki," sagði Wenger.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×