Enski boltinn

Sir Alex: Man. United er ekki að fara að reyna að kaupa Lampard

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Frank Lampard.
Frank Lampard. Mynd/Nordic Photos/Getty
Sir Alex Ferguson, stjóri Manchester United, segir ekkert til í því að hann sé að undirbúa tilboð í enska landsliðsmiðjumanninn Frank Lampard frá Chelsea en Lampard er ekki lengur fastamaður á Brúnni. United þarf nauðsynlega á liðstyrk að halda inn á miðju vallarins enda eru margir miðjumenn liðsins meiddir.

„Haldið þið virkilega að Chelsea muni selja leikmann til United í janúar?," er haft eftir Sir Alex Ferguson á heimasíðu Manchester United. „Það er enginn fótur fyrir þessu. Chelsea ætlar sér að gera eitthvað á seinni hluta tímabilsins og þá þarf liðið að halda sínum bestu leikmönnum," sagði Ferguson.

„Það er erfitt að ná í leikmenn í janúar. Þeir leikmenn sem við viljum fá eru ekki í boði. Það er möguleiki að fá annarsflokks leikmenn en ég hef engan áhuga á því," sagði Ferguson.

„Meiðslin í okkar herbúðum hafa séð til þess að stuðningsmenn okkar vilja fá liðstyrk en ég vil ekki fá leikmann sem kemst ekki í liðið þegar allir eru orðnir heilir," sagði Ferguson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×