Enski boltinn

Liverpool komið áfram í enska bikarnum - vann Oldham 5-1

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jonjo Shelvey og Craig Bellamy lögðu upp mark fyrir hvorn annan í kvöld.
Jonjo Shelvey og Craig Bellamy lögðu upp mark fyrir hvorn annan í kvöld. Nordic Photos / Getty Images
Liverpool varð fyrsta liðið til þess að komast áfram í 4. umferð ensku bikarkeppninnar eftir 5-1 sigur á C-deildarliðið Oldham Athletic á Anfield í kvöld. Oldham komst yfir í leiknum en sigur Livepool var ekki í mikilli hættu í seinni hálfleiknum.

Craig Bellamy og Jonjo Shelvey voru báðir með mark og stoðsendingu í kvöld en þriðja markið skoraði fyrirliðinn Steven Gerrard í sínum fyrsta leik í byrjunarliðinu eftir að hann snéri til baka eftir meiðsli.  Andy Carroll skoraði síðan fjórða markið og opnaði markareikning sinn á Anfield á leiktíðinni og lokamarkið gerði síðan Stewart Dwning en þetta var fyrsta mark hans fyrir félagið.

Oldham var þrisvar sinnum nálægt því að skora á fyrstu 22 mínútum leiksins en markið kom loksins á 28. mínútu þegar Robbie Simpson skoraði með glæsilegu langskoti.

Það tók Liverpool hinsvegar aðeins 66 sekúndur að jafna metin. Jonjo Shelvey átti þá skot sem fór í Craig Bellamy og þaðan fór boltinn óverjandi í markið.

Maxi Rodriguez fiskaði síðan ódýra vítaspyrnu á 44. mínútu og Steven Gerrard skoraði af öryggi úr vítaspyrnunni í slána og inn. Gerrard byrjaði leikinn ekki vel en óx ásmegin eftir því sem leið á hálfleikinn.

Craig Bellamy átti mjög góðan leik í kvöld og hann þakkaði fyrir þjónustuna frá Shelvey í fyrri hálfleik með því að leggja upp þriðja markið fyrir Jonjo Shelvey á 68. mínútu.

Andy Carroll og Stewart Downing komu báðir inn á sem varamenn í lokin og innsigluðu sigurinn. Carroll skoraði markið með þrumuskoti af 20 metra færi, sitt fyrsta mark á Anfield á tímabilinu og Stewart Downing átti lokaorðið þegar hann fylgdi á eftir skoti Jon Flanagan. Downing hafði ekki skorað fyrir Liverpool og fengið mikla gagnrýni fyrir það.

Liverpool komst þannig áfram í 4. umferð í fyrsta sinn síðan 2009 en liðið datt út fyrir Manchester United í 3. umferð í fyrra og fyrir Reading á sama tíma árið á undan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×