Enski boltinn

Newcastle vann 3-0 sigur á Man. United | Tvö töp í röð hjá meisturunum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Newcastle vann 3-0 sigur á Manchester United í ensku úrvalsdeildinni í kvöld og hefur þar með tekið fjögur stig út úr tveimur leikjum sínum á móti ensku meisturunum á tímabilinu. Þetta var fyrsti heimsigur Newcastle-liðsins síðan 5. nóvember og ennfremur fyrsta tap United á útivelli á tímabilinu.

Þetta var fyrsti sigur Newcastle á Manchester United í meira en áratug eða síðan í september 2001. Demba Ba og Yohan Cabaye hafa verið frábærir hjá Newcastle á tímabilinu og voru báðir á skotskónum í leiknum í kvöld en Newcastle var fyrir leikinn aðeins búið að vinna einn af síðustu átta deildarleikjum sínum.

Manchester United er þar með búið að tapa tveimur deildarleikjum í röð en liðið lá 2-3 á heimavelli á móti Blackburn Rovers í leiknum á undan. Nágrannarnir i Manchester City verða því áfram með þriggja stiga forskot á United á toppi deildarinnar.

Demba Ba skoraði fyrsta markið á 33. mínútu. Tim Krul átti langt útspark sem Shola Ameobi skallaði fyrir fætur Demba Ba sem lyfti boltanum laglega yfir Anders Lindegaard í markinu.

Yohan Cabaye skoraði annað markið á 47. mínútu með stórglæsilegu skoti beint úr aukaspyrnu af 30 metra færi. Þriðja og síðasta markið var síðan afar klaufalegt sjálfsmark Phil Jones á 90. mínútu sem setti punktinn á bak við vandræðalegt tap United-liðsins.

Staðan í ensku úrvalsdeildinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×