Enski boltinn

Gylfi Þór og Eggert komnir með númer á búningana sína

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Gylfi Þór Sigurðsson.
Gylfi Þór Sigurðsson. Mynd/Nordic Photos/Getty
Gylfi Þór Sigurðsson og Eggert Gunnþór Jónsson eru báðir mættir í ensku úrvalsdeildina, Gylfi Þór er í láni hjá Swansea og Eggert Gunnþór er kominn til Wolves eftir sjö ára dvöl hjá Hearts í Skotlandi.

Gylfi mætti til Wales í kvöld og mun væntanlega fara á sína fyrstu æfingu með liðinu á morgun. Hann mun spila í númer 42 hjá Swansea en var númer 11 hjá Hoffenheim og númer 25 hjá Reading. Scott Sinclair spilar númer 11 hjá Swansea og markvörðurinn Gerhard Tremmel er númer 25.

Eggert er byrjaður að æfa með Wolves en hann var ekki í leikmannahópnum á móti Chelsea í gær. Eggert var númer 4 hjá Hearts mun leika númer 22 hjá Wolves. Miðjumaðurinn David Edwards spilar í treyju númer 4 hjá Úlfunum.

Næstu leikir Swansea og Wolves eru í enska bikarnum um næstu helgi, Eggert og félagar í Wolves mæta Birmingham en Gylfi og félagar í Swansea spila við Barnsley.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×