Enski boltinn

Suarez: Nú skil ég það fyrir alvöru hvað "You'll Never Walk Alone" þýðir

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Luis Suarez og Patrice Evra.
Luis Suarez og Patrice Evra. Mynd/Nordic Photos/Getty
Liverpool birti yfirlýsingu frá Luis Suarez á heimasíðu sinni í kvöld eftir að ljóst varð að átta leikja banni hans yrði ekki áfrýjað. Suarez byrjar á því að taka út bannið í kvöld en enska knattspyrnusambandið dæmdi Úrúgvæmanninn á dögunum fyrir kynþáttaníð gagnvart Patrice Evra hjá Manchester United. Suarez mun ekki spila með Liverpool fyrr en í febrúar.

Hér fyrir neðan má sjá þýðingu á yfirlýsingu Suarez.

Ég vil byrja á því að þakka öllum fyrir alla hjálpina og allan stuðninginn undanfarnar vikur.

Ég vil þakka fjölskyldu minni, vinum mínum og öllum hjá Liverpool hvort sem það eru starfsmenn, stjórinn, þjálfarar, stjórnarmenn, liðsfélagarnir eða aðrir sem vinna fyrir félagið. Ég vil líka þakka stuðningsmönnunum sérstaklega fyrir það að sjá til þess að mér leið aldrei eins og ég stæði einn í þessu. Nú skil ég það fyrir alvöru hvað "You'll Never Walk Alone" þýðir

Eins og mörg ykkar þá var ég fæddur inn í hógværa fjölskyldu í verkalýðsstétt í litlu landi. Ég var alinn þannig upp að ég vissi hvað virðing, mannasiðir og fórnir þýða. Ég get þakkað fjölskyldu minni fyrir það og fyrir það að ég varð að þeim manni sem ég er í dag. Ég hef aldrei og ég endurtek, aldrei, lent í vandamálum gagnvart liðsfélaga eða annarri manneskju sem var ekki af sama kynþætti eða af sama húðlit og ég. Aldrei nokkurn tímann.

Ég er mjög ósáttur með allt sem hefur verið sagt um mig undanfarnar vikur enda er það allt langt frá því að vera satt. Ég er líka mjög ósáttur með að geta ekkert gert við því að vera ásakaður um eitthvað sem ég gerði ekki og mun aldrei gera.

Í mínu heimalandi er orðið "negro" notað oft og það er ekki orð sem felur í sér einhverja lítilsvirðingu eða tengist einhverjum kynþáttafordómum. Allt sem hefur verið sagt hingað til er því algjörlega ósatt.

Ég mun taka út þetta bann sem saklaus maður sem hefur ekkert gert af sér og er mjög sár yfir því sem hefur gerst. Ég finn til með stuðningsmönnunum og með liðsfélögum mínum af því að ég get ekkert hjálpað þeim næsta mánuðinn. Þetta verður mjög erfiður tími fyrir mig.

Það eina sem ég óska er að fá tækifæri til að hlaupa út á Anfield á ný og fá að gera það sem ég elska mest sem er að spila fótbolta.

Það er hægt að sjá yfirlýsinguna með því að smella hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×