Enski boltinn

Liverpool mun ekki áfrýja leikbanni Suarez | Byrjar bannið í kvöld

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Luis Suarez.
Luis Suarez. Mynd/Nordic Photos/Getty
Luis Suarez, framherji Liverpool, er á leiðinni í átta leikja bann eftir að ljóst varð að Liverpool ætlar ekki að áfrýja banninu sem enska knattspyrnusambandið dæmdi Úrúgvæmanninn á dögunum fyrir kynþáttaníð gagnvart Patrice Evra hjá Manchester United.

Forráðamenn, stjóri og leikmenn Liverpool hafa lýst yfir stuðningi við leikmanninn og það var búist við að banninu yrði áfrýjað enda þótti það strangt.

Liverpool gaf frá sér yfirlýsingu í kvöld þar sem félagið telur best fyrir alla að ljúka málinu, horfa til framtíðar og sameinast í baráttunni við að að útrýma kynþáttafordómum innan sem utan vallar.

Það kemur samt fram í yfirlýsingunni að forráðamenn Liverpool eru mjög ósáttir við 115 síðna greinargerð enska knattspyrnusambandsins um málið sem þeir telja hlutlæga og hafi skemmt orðspor eins besta leikmannsins í enska úrvalsdeildinni.

Luis Suarez verður því ekki með á móti Manchester City í kvöld en ætti að snúa aftur í deildarleik á móti Tottenham 6. febrúar næstkomandi. Hann missir af fimm deildarleikjum og þremur bikarleikjum þar af báðum undanúrslitaleikjunum á móti Manchetser City í enska deildarbikarnum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×