Enski boltinn

Man. City með þriggja stiga forskot eftir 3-0 sigur á Liverpool

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mynd/AFP
Manchester City er komið með þriggja stiga forskot á nágranna sína í Manchester United á toppi ensku úrvalsdeildarinnar eftir 3-0 sigur á Liverpool í kvöld. Manchester United getur náð þeim að stigum á morgun þegar liðið heimsækir Newcastle.

Manchester City hafði hikstað aðeins undanfarið og var ekki búið að skora í tveimur síðustu leikjum sínum. City-liðið sýndi hinsvegar enn á ný styrk sinn á heimavelli þar sem liðið hefur unnið alla tíu leiki sína með markatölunni 31-4.

Gareth Barry, miðjumaður Manchester City, fékk rauða spjaldið þegar tuttugu mínútur voru eftir en Liverpool tókst ekki að nýta sér það. Þetta var aðeins annað tap Liverpool-liðsins í síðustu fimmtán deildarleikjum sínum.

Stewart Downing fékk dauðafæri á 9. mínútu en Joe Hart varði frá honum og aðeins rúmri mínútu síðar var Manchester City komið yfir í leiknum eftir varnarmistök hjá Liverpool. Það varð jafnfram fyrsta mark City-liðsins í 226 mínútur.

City-menn unnu boltann af Dirk Kuyt fyrir framan vítateig Liverpool, David Silva kom boltanum strax til Sergio Aguero sem lét vaða á markið. Pepe Reina virtist ætla að eiga í litlum vandræðum með að verja en boltinn lak undir hann og í markið.

Yaya Touré kom City-liðinu síðan í 2-0 á 33. mínútu með skalla eftir hornspyrnu frá David Silva en markið var keimlíkt því sem Vincent Kompany skoraði í fyrri leik liðanna.

Gareth Barry fékk sitt annað gula spjald á 72. mínútu en Liverpool-liðið var ekki búið að vera lengi manni fleiri þegar Yaya Touré var búinn að fiska víti á Martin Skertl. James Milner skoraði af öryggi úr vítinu og kom City í 3-0. Þannig urðu lokatölurnar.



Staðan í ensku úrvalsdeildinni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×