Enski boltinn

Ekkert ósætti á milli Rooney og Ferguson

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Getty Images
Enskir fjölmiðlar fjalla áfram um meint agabann Wayne Rooney hjá Manchester United. Félagið hefur ekkert vilja staðfesta um þetta en heimildamenn innan félagsins segja að Rooney hafi verið settur í agabann en að málinu sé þó lokið.

Rooney fór út að borða að kvöldi annars dags jóla með þeim Darron Gibson og Jonny Evans. Alex Ferguson mun hafa reiðst við þetta og hafa dæmt þá í agabann. Enginn þeirra spilaði í 3-2 tapleiknum gegn Blackburn um helgina en Evans á reyndar við meiðsli að stríða.

Fyrir þann leik sagði Ferguson að Rooney væri ekki með þar sem að hann hefði ekki getað æft og ætti við smávægileg meiðsli að stríða. En að hann ætti að geta náð leiknum gegn Newcastle á miðvikudaginn.

Enska götublaðið The Sun hefur eftir sínum heimildum að Rooney hafi sætt sig við agabannið og málinu væri lokið af hálfu félagsins. „Það er ekkert ósætti á milli Wayne og stjórans. Wayne vill bara fá að halda áfram og ekki gera mikið mál úr þessu," var haft eftir heimildamanninum.

Ferguson fagnaði sjötugsafmæli sínu á laugardaginn en United mistókst þó að komast á topp ensku úrvalsdeildarinnar þar sem liðið óvænt fyrir tapliði Blackburn á heimavelli.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×