Enski boltinn

Gylfi Þór til liðs við Swansea

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Gyfli Þór fær vonandi meiri spiltíma í enska boltanum en þeim þýska.
Gyfli Þór fær vonandi meiri spiltíma í enska boltanum en þeim þýska.
Gylfi Þór Sigurðsson gengur á morgun til liðs við enska úrvalsdeildarfélagið Swansea á lánssamningi frá þýska félaginu Hoffenheim. Samningur Gylfa við velska félagið mun ná til loka leiktíðarinnar. Þetta staðfesti Gylfi Þór í samtali við mbl.is fyrr í kvöld.

Gylfi Þór, sem gekk til liðs við Hoffenheim sumarið 2010 frá Reading á Englandi, hefur fengið fá tækifæri með liðinu á yfirstandandi leiktíð eftir frábæra frammistöðu á sínu fyrsta tímabili í Þýskalandi.

Allt útlit er fyrir að fjórir Íslendingar leiki í ensku úrvalsdeildinni á nýju ári. Grétar Rafn Steinsson leikur með Bolton og Heiðar Helguson hefur farið á kostum hjá QPR. Þá gekk Eggert Gunnþór Jónsson nýverið frá samningi við Wolves.

Swansea situr 14. sæti ensku úrvalsdeildarinnar en félagið er nýliði í deildinni. Liðið hefur komið á óvart bæði vegna góðrar frammistöðu á vellinum en ekki síður fyrir þá léttleikandi knattspyrnu sem liðið spilar. Heimavöllur liðsins, Liberty-völlurinn, hefur reynst liðinu sérstaklega vel.

Hjá Swansea hittir Gylfi Þór fyrir knattspyrnustjórann Brendan Rodgers. Rodgers var einmitt sá sem gaf Hafnfirðingnum tækifæri hjá Reading á sínum tíma þar sem hann sló í gegn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×