Enski boltinn

Van Persie mjög ánægður með lífið í Lundúnum

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Robin van Persie í leik með Arsenal.
Robin van Persie í leik með Arsenal. Nordic Photos / Getty Images
Hollendingurinn Robin van Persie hefur gefið sterklega til kynna að hann hafi ekki í hyggju að fara frá Arsenal - að minnsta kosti ekki frá Lundúnum.

Van Persie átti frábært ár 2011. Hann skoraði 35 deildarmörk fyrir Arsenal á árinu sem er metjöfnun hjá félaginu og einu minna en Alan Shearer gerði árið 1995 er hann setti met í ensku úrvalsdeildinni.

Hann á nú átján mánuði eftir af samningi sínum við félagið og talsvert hefur verið fjallað um stöðu hans að undanförnu. Hann hefur verið orðaður við mörg stærstu félög heims en sjálfur hefur hann lítið vilja tjá sig um samningsmálin.

Hann sagði þó við enska fjölmiðla að honum og fjölskyldu sinni liði mjög vel í Lundúnum. „Við elskum lífið hér í Lundúnum og ég nýt þess að fylgjast með uppvexti barna minna hér," sagði hann.

„Þau eru að fá enskt uppeldi þar sem þau læra góða mannasiði og eru kurteis. Við búum á frábærum stað rétt utan borgarinnar og þar skortir okkur ekkert. Fólkið er indælt og skiptir það miklu máli."

„Börnin mín eru að verða meiri Englendingar en Hollendingar. Þegar skólinn er í fríi vilja þau ekki fara til Hollands lengur."

Van Persie er í miklum metum hjá stuðningsmönnum Arsenal og kann hann að meta stuðninginn. „Ég gæti ekki fengið betra hrós. Ég verð að viðurkenna að mér líkar bara nokkuð vel við borða eins og „Við þurfum ekki Batman - við erum með Robin"," sagði van Persie.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×