Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra ætlar að styðja tillögu Bjarna Benediktssonar formanns Sjálfstæðisflokksins um að draga til baka ákæru Alþingis á hendur Geir H. Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra fyrir Landsdómi.
Ögmundur greinir frá þessari afstöðu sinni í grein í Morgunblaðinu í dag, en á sínum tíma greiddi Ögmundur atkvæði með tillögu um að höfða mál gegn fjórum fyrrverandi ráðherrum, sem voru við völd í aðdraganda hrunsins.
Ögmundur segir í greininni að málið hafi tekið eðlisbreytingu þegar í ljós kom að aðeins Geir skyldi ákærður og málið hafi þar með tekið á sig afskræmda flokkspólitíska mynd, og sú staðreynd ráði afstöðu hans nú.
Flokkssystir Ögmundar, Guðfríður Lilja Grétarsdóttir hefur áður lýst sömu afstöðu til málsins.

