Enski boltinn

Balotelli er ekki á leiðinni til Mílanó: Ánægður í Manchester

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mario Balotelli.
Mario Balotelli. Mynd/Nordic Photos/Getty
Mario Balotelli segist ekkert vera á leiðinni frá Manchester City og að hann sé nú mjög ánægður í Manchester-borg þrátt fyrir erfiða byrjun. Balotelli hefur verið orðaður við AC Milan að undanförnu.

Mario Balotelli kom til Manchester City frá Internazionale haustið 2010 en átti erfitt uppdráttar til að byrja með. Hann er hinsvegar kominn í guðatölu meðal stuðningsmanna City fyrir uppátæki sín innan sem utan vallar.

„Blöðin eru að skrifa um það að ég vilji fara frá Manchester en ég hef aldrei talað við þessa blaðamenn. Þeir geta skrifað það sem þeir vilja en ég er og verð áfram í Manchester. Ég er með samning við City og fer ekki að ræða nýjan samning fyrr en að rétti tíminn er til þess," sagði Balotelli í útvarpsviðtali á Ítalíu. Balotelli er með samning við City til ársins 2015.

„Það hefur verið ný reynsla fyrir mig að spila í ensku úrvalsdeildinni og það var erfitt hjá mér til að byrja með. Ef ég segi alveg eins og er þá er ég núna mjög ánægður í Manchester," sagði Balotelli.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×