Handbolti

Knudsen er meiddur en verður samt með Dönum á EM

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Michael V. Knudsen í leik á móti Svíum.
Michael V. Knudsen í leik á móti Svíum. Mynd/Nordic Photos/Getty
Danska landsliðið varð fyrir áfalli á dögunum þegar í ljós koma að línumaðurinn Michael V. Knudsen geti ekki spilað með liðinu á EM í Serbíu vegna meiðsla. Knudsen vill hjálpa liðinu þrátt fyrir meiðslin og bað um að fá að fara út með EM-hópnum.

Knudsen er 33 ára og spilar með Flensburg/Handewitt í Þýskalandi. Hann hefur lengi þótt vera í hópi bestu línumanna heims og hefur þegar unnið fjögur verðlaun með danska landsliðinu á EM auk tveggja verðlauna á HM.

Knudsen getur örugglega ekki verið með í riðlakeppninni en gæti hugsanlega komið inn eftir fyrstu vikuna þegar við tekur keppni í milliriðli. Hann verður í það minnsta á staðnum og Ulrik Wilbek, þjálfari danska liðsins, gæti því tekið hann inn í liðið. Fram að því munu Toft Hansen bræðurnir, René og Henrik, sjá um línustöðuna.

Ulrik Wilbek tók strax vel í beiðni Knudsen um að fá að fara með. "Michael V. Knudsens átti frumkvæðið að þessu sjálfur og þetta er frábært því við höfum ekki marga leikmenn sem eru með svo mikla reynslu og hann. Hann er líka mikill húmoristi sem er gott fyrir hópinn. Hann er hress náungi með hjartað á réttum stað. Ég þurfti ekki að hugsa þetta lengi og sagði strax já," sagði Ulrik Wilbek.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×